Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kolbeinn kom við sögu í sigri AIK

Kolbeinn Sigþórsson lék síðustu tuttugu mínúturnar þegar AIK vann sigur í dag.

Mynd/Aftonbladet

Kolbeinn Sigþórsson kom inn á sem varamaður á 70. mínútu þegar lið hans AIK vann 2-0 sigur á Hammarby, liði Viðars Arn­ar Kjart­ans­son­ar, í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Viðar Örn lék allan leikinn fyrir Hammarby.

Kolbeinn sneri í dag aftur í lið AIK eftir að hafa misst af síðustu fjórum leikjum liðsins vegna meiðsla. Hann var nú á dögunum óvænt valinn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Albaníu og Tyrklandi í undankeppni EM 2020, 8. og 11. júní. Viðar Örn verður einnig í landsliðshópnum.

Bæði mörkin hjá AIK í dag voru skoruð með stuttu millibili í fyrri hálfleik. Sebastian Larsson skoraði fyrra mark liðsins á 17. mínútu eftir skyndisókn og aðeins tveimur mínútum síðar, á 19. mínútu, var Larsson aftur á ferðinni er hann skoraði annað mark liðsins með skalla eftir góða fyrirgjöf.

AIK er eft­ir leik­inn í þriðja sæti deild­ar­inn­ar með 24 stig að 12 umferðum loknum. Hammarby er í sjötta sætinu með 19 stig.

Guðmundur Þórarinsson spilaði þá fyrsta klukkutímann þegar Norrköping sigraði Eskilstuna, 2-0, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Norrköping er í sjöunda sæti deildarinnar með 18 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun