Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Kolbeinn Birgir skoraði tvö og lagði upp tvisvar í sama leiknum

Kolbeinn Birgir gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk og lagði upp tvisvar í sama leiknum.

Kolbeinn í leiknum í gær. Mynd/brentfordfc.com

Kolbeinn Birgir Finnsson átti frábæran leik fyrir B-lið Brentford í gær sem vann 6-1 sigur á B-liði Genoa frá Ítalíu.

Kolbeinn, sem er 19 ára, gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk í leiknum og til viðbótar lagði hann upp tvö mörk.

Mörk Kolbeins í leiknum voru ekki af lakara taginu því hann skoraði þau bæði fyrir utan vítateig. Mörk hans í leiknum má sjá hér neðst í fréttinni.

Kolbeinn er búinn að eiga flott tímabil með B-liði Brentford en hann hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur fjórtán.

Íslenski markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson varði mark B-liðs Brentford í leiknum. Patrik kom um daginn inn á sem varamaður og spilaði síðustu mínúturnar í 1-2 sigri gegn Middlesbrough í ensku B-deildinni.

B-lið Brentford hefur síðustu daga verið í æfingaferð að undirbúa sig fyrir úrslitaleik gegn Welling United í London Senior-bikarkeppninni. Sá leikur fer fram á þriðjudaginn í næstu viku.

Liðið spilaði við varalið Nice á þriðjudaginn í vikunni í Frakklandi en sá leikur endaði með 0-2 tapi. Kolbeinn og Patrik spiluðu báðir í þeim leik.

B-lið Brentford hefur farið í alls fjórar æfingaferðir á leiktíðinni. Liðið fór áður í vetur til Sviss og Ítalíu í fyrra og svo síðast til Portúgals í janúar á þessu ári.

Kolbeinn og Patrik gengu báðir til liðs við Brentford í fyrrasumar. Þeir gerðu tveggja ára samning við félagið.

Mörk Kolbeins í leiknum má sjá hér:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið