Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kolbeini stóð til boða að spila í Asíu

Kolbeinn segir í viðtali í Svíþjóð að honum hafi staðið til boða að spila í Asíu.

Kolbeinn í leik með AIK um síðustu helgi. Mynd/Aftonbladet

Kolbeinn Sigþórsson spilaði um síðustu helgi sinn fyrsta leik fyrir AIK sem vann heimasigur á Eskilstuna í 7. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Kolbeinn byrjaði á varamannabekk AIK en kom inn á sem varamaður á 65. mínútu leiksins.

Kolbeinn var að koma aftur til baka eftir erfið meiðsli. Hann rifti samningi sínum við franska liðið Nantes í marsmánuði og nokkrum vikum síðar samdi hann við AIK út árið 2021.

Í dag birtist viðtal við Kolbein á vef Aftonbladet þar sem hann svaraði nokkrum spurningum.

„Ég samdi við AIK að mestu leyti út af miklum áhuga frá félaginu sem var skilningsríkt og kunnugt um að ég hafi ekki spilað mikið síðustu ár,“ segir Kolbeinn í viðtalinu.

Stóð til boða að fara að spila í Asíu

Kolbeinn segir að hann hafi fengið allnokkur tilboð áður en hann skrifaði undir hjá AIK.

„Já, ég fékk allnokkur tilboð. Mér stóð til boða að fara að spila í Asíu en hugurinn leitaði alltaf að spila með liði í Evrópu. Ég er á besta aldri til að geta enn spilað á svipuðum vettvangi og fyrir nokkrum árum. Ég tel þetta vera skref í rétta átt og gott tækifæri til komast á þann stað sem ég vil vera á.“

Erfiðir tímar að baki

Um haustið 2016 fór Kolbeinn á láni til tyrkneska félagsins Galatasaray,  sem hafði forkaupsrétt á honum, en hann náði hins vegar aldrei að leika fyrir félagið því hann varð fyrir alvarlegum hnémeiðslum stuttu eftir félagaskiptin. Kolbeinn fór í tvær aðgerðir í kjölfar hnjámeiðslanna, fyrst fór hann í aðgerð í september 2016 og aftur sumarið 2017.

„Þetta var erfitt. Það er erfitt að geta ekki sýnt það sem þú ert fær um. Svona getur fótboltinn verið en það á ekki kenna sjálfum sér um, því það er betra að komast yfir erfiðleikana og koma sterkari til baka.“

Líður vel í Svíþjóð

„Mér líður eins og ég sé kominn heim. Allir í kringum félagið eru mjög vinalegir og andrúmsloftið er mjög gott. Það alltaf gaman að mæta á æfingar á morgnana.“

Erfiður leikur á morgun

AIK á erfiðan leik á morgun í sænsku úrvalsdeildinni þegar liðið fer í heimsókn til Djurgården sem hefur farið vel af stað ásamt nokkrum liðum í sænsku úrvalsdeildinni. Liðin í efstu sætunum í deildinn hafa safnað svipað mörgum stigum og Djurgården, sem er með 12 stig í 6. sæti, getur farið á toppinn með sigri á meðan AIK getur farið úr 8. sæti upp í 3. sæti, sem er Evrópusæti.

Sjá einnig: AIK greiðir Kolbeini 700 þúsund fyrir hvert mark

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir