Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kjartan Henry minnist bróður síns: „Ég mun aldrei gleyma þér“

Kjartan Henry minnist bróður síns með fallegum orðum.

„Elsku bróðir, það er ólýsanlega sárt að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn, allt allt of snemma,“ segir Kjartan Henry Finnbogason sem syrgir nú eldri bróður sinn Hallgrím Þormarsson sem féll frá þann 27. október síðastliðinn og var jarðsunginn í gær.

Rúmri viku eftir fráfall Hallgríms spilaði Kjartan Henry fyrir Vejle gegn Fremad Amager í dönsku 1. deildinni. Kjartan reimaði á sig markaskóna í þeim leik og til­einkaði bróður sínum markið sem hann skoraði, en markið má sjá hér.

Vegna útfarar bróður síns spilaði Kjartan Henry ekki með Vejle í gær gegn Nykøbing.

Kjartan Henry minnist bróður síns á Instagram-síðu sinni og með orðunum birtir hann gamla mynd af þeim saman.

„Elsku bróðir, það er ólýsanlega sárt að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn, allt allt of snemma. Þú varst alltaf svo duglegur og klár. Ég man hvað ég montaði mig oft af þér þegar að ég var yngri. Duglegur að læra og agaður bílatöffari. Þú hafðir óbilandi mikinn metnað í öllu sem að þú tókst þér fyrir hendur og fórst yfirleitt alla leið. Ekki síst hafðir þú metnað fyrir mína hönd. Takk fyrir að passa mig, takk fyrir að tuska mig til en fyrst og fremst takk fyrir að vera stóri bróðir minn. Ég mun aldrei gleyma þér. Hvíldu í friði❤️,“ skrifar Kjartan Henry.

Íslendingavaktin sendir Kjartani og fjöl­skyldu hans inni­leg­ar samúðarkveðjur.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir