Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Kjartan Henry skoraði tvö fyrir Vejle – Gummi Tóta lagði upp tvö í sigri Norrköping

Kjartan Henry og Gummi Tóta með stórleik

Kjartan Henry Finnbogason spilaði allan leikinn í 2-1 sigri Vejle gegn Skive í dönsku fyrstu deildinni í dag. Kjartan gerði sér lítið fyrir og skoraði bæði mörkin fyrir Vejle. Með sigrinum fór Vejle upp fyrir Skive í fimmta sætið með 8 stig eftir sex leiki. Í næstu umferð mætir Vejle liði Ingvars Jónssonar, Viborg.

Viborg er á toppi deildarinnar eftir 3-0 sigur á Nyköping í dag. Ingvar stóð á milli stanganna í liði Viborg í leiknum. Liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu sex leikjunum og er sem fyrr segir á toppi deildarinnar, með 14 stig.

Guðmundur Þórarinsson, gjarnan kallaður Gummi Tóta, var í byrjunarliði Norrköping sem fór létt með Helsingborg í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Lokatölur urðu 5-0 fyrir Norrköping. Guðmundur lagði upp fyrsta og síðasta mark leiksins. Daniel Hafsteinsson kom inná sem varamaður í liði Helsingborg undir lok leiksins. Norrköping er í sjötta sæti með 37 stig eftir 21 umferð. Helsingborg er hins vegar í 13. sæti með 18 stig.

Kolbeinn Sigþórsson var á varamannabekknum hjá AIK sem mætti Östersund. Kolbeinn kom inná þegar um átta mínútur voru eftir af leiknum í stöðunni 1-1. AIK bætti við tveimur mörkum og unnu að lokum 3-1. AIK er í öðru sæti með 43 stig eftir 21 umferð.

Astana, lið Rúnars Más Sigurjónssonar, vann öruggan sigur á Taraz 5-0 í efstu deildinni í Kasakstan. Rúnar byrjaði á varamannabekknum en kom inná þegar um 25 mínútur voru eftir af leiknum. Astana er í þriðja sæti, tveimur stigum á eftir toppliðinu, en á leik til góða.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun