Fylgstu með okkur:

Fréttir

Kaisers­lautern og Helsingsborgs hafa náð sam­komu­lagi um Andra Rúnar

Kaisers­lautern hefur komist að samkomulagi við sænska úrvalsdeildarliðið Helsingsborgs um kaup á Andra Rúnari.

Mynd/hd.se

Þýska C-deildarliðið Kaisers­lautern hefur komist að samkomulagi við sænska úrvalsdeildarliðið Helsingsborgs um kaup á Andra Rúnari Bjarnasyni, samkvæmt heimildum Íslendingavaktarinnar en það var FotbollDirekt í Svíþjóð sem greindi fyrst frá.

Samningaviðræður Andra Rúnars við Kaisers­lautern er nú eina fyrirstæðan fyrir því að hann gangi í raðir félagsins en hann á eftir að semja um kaup og kjör við félagið.

Andri Rúnar, sem er 28 ára, rennur út á samningi hjá Helsingborgs eftir yfirstandandi tímabil. Hann hefur verið sagður vera í viðræðum um að endurnýja samning sinn hjá félaginu og þá hefur þýska B-deildarliðið Darmstadt verið orðað við hann á síðustu dögum.

Andri Rúnar átti stóran þátt í því þegar lið hans Helsingborgs tryggði sér á síðustu leiktíð sæti í efstu deild Svíþjóðar með því að verða meistari í B-deildinni þar í landi. Andri gerði samning við liðið fyrir síðustu leiktíð eftir að hafa átt stórkostlegt tímabil með Grindavík sumarið 2017 þar sem hann skoraði alls 19 mörk í 22 leikjum.

Frumraun Andra Rúnars í atvinnumennsku gekk eins og í sögu og hann tók sænsku B-deildina, Superettan, með trompi á síðustu leiktíð og hirti markakóngstitilinn. Hann skoraði 16 mörk og lagði upp önnur sex. Andri Rúnar hefur skorað þrjú mörk í átta leikjum það sem af er núverandi leiktíð.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir