Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jón Guðni lék allan tímann í jafntefli Krasnodar

Jón Guðni lék allan tímann með Krasnodar þegar liðið gerði jafntefli í rússnesku úrvalsdeildinni.

Jón Guðni í leik með Krasnodar í Evrópudeildinni á þessari leiktíð. ÍV/Getty

Jón Guðni Fjóluson var í dag í byrjunarliðinu hjá Krasnodar og lék allan tímann þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við FC Orenburg í rússnesku úrvalsdeildinni.

Allt stefndi í mikilvægan heimasigur hjá Krasnodar í dag en Orenburg jafnaði leikinn í 2-2 rétt undir lok leiksins, á 89. mínútu.

Þetta var hans annar byrjunarliðsleikur í röð með félaginu í deildinni.

Jón sat allan tímann á varamannabekknum þegar liðið mætti Valencia síðasta fimmtudag í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Krasnodar situr í öðru sæti deildarinnar, með 35 stig, og er fimm stigum á eftir toppliði Zenit St. Petersburg. Ellefu leikir eru eftir af leiktíðinni.

Íslendingaliðið CSKA Moscow er í þriðja sæti deildarinnar, með 33 stig, aðeins tveimur stigum á eftir Krasnodar.

Fyrsta og annað sætið í deildinni tryggir liðum í deildinni fast sæti í Meistaradeild Evrópu en þriðja sætið gefur umspilssæti í sömu keppni.

Jón, sem er 29 ára, gekk í raðir Krasnodar í ágúst síðastliðnum og gerði þriggja ára samning við félagið.

Hann hefur á leiktíðinni þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu hjá félaginu, en hann hefur einungis spilað sjö leiki á leiktíðinni í öllum keppnum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun