Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jón Guðni lék allan leikinn er Krasnodar datt út

Jón Guðni og félagar hans í Krasnodar duttu út gegn Valencia í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.

ÍV/Getty

Liðin Krasnodar og Valencia mættust í seinni viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jaftefli.

Jón Guðni Fjóluson leikur með Krasnodar og var hann í byrjunarliðið liðsins og lék hann allan leikinn.

Krasnodar var að leika á heimavelli í kvöld en liðið þurfti aðeins að sigra 1-0 til komast í 8-liða úrslit, því fyrri viðureign liðanna endaði með 2-1 sigri Valencia fyrir einmitt viku síðan.

Krasnodar skoraði rétt undir lok leiksins, á 85. mínútu, og allt benti til þess að liðið færi áfram á útivallarreglunni, en allt kom fyr­ir ekki. Valencia náði að jafna leikinn í uppbótartíma og liðið komst því áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Jón var í kvöld að leika sinn annan leik í röð á skömmum tíma. Hann lék allan tímann með Krasnodar á mánudaginn þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við FC Orenburg í rússnesku úrvalsdeildinni.

Krasnodar situr í öðru sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar, með 35 stig, og er fimm stigum á eftir toppliði Zenit St. Petersburg. Ellefu leikir eru eftir af leiktíðinni.

Jón, sem verður þrítugur í næsta mánuði, hefur mestan hluta leiktíðar þurft að sætta sig við að sitja á varamannabekknum hjá Krasnodar. Hann var í kvöld að leika sinn áttunda leik á leiktíðinni í öllum keppnum.

Jón verður í landsliðshópi Íslands sem mætir Andorra þann 22. mars og Frakklandi þremur dögum síðar í undankeppni Evrópumótsins 2020.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun