Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jón Guðni hafði betur gegn Arnóri

Jón Guðni og félagar hans í Krasnodar höfðu í dag betur gegn Arnóri Sigurðssyni og samherjum hans í CSKA Moskvu.

ÍV/Getty

Í dag fór fram Íslendingaslagur í rússnesku úrvalsdeildinni þegar Jón Guðni Fjóluson og liðsfélagar hans í Krasnodar fengu Arnór Sigurðsson og samherja hans í CSKA Moskvu í heimsókn.

Jón Guðni og Arnór spiluðu báðir allan leikinn en Hörður Björgvin Magnússon sat á varamannabekk CSKA Moskvu og kom ekki við sögu í leiknum.

Tölfræði leiksins gaf til kynna að leikurinn hafi verið nokkuð jafn. Bæði lið áttu svipað margar marktilraunir í leiknum en CSKA Moskva var töluvert meira með boltann, eða alls 60%.

Fljótlega í leiknum gerði Igor Akinfeev, markvörður CSKA Moskvu, sig sekan um klaufaleg mistök þegar hann átti misheppnaða sendingu sem fór beint fyrir fætur sóknarmanns Krasnodar. Leikmenn Krasnodar nýttu sér þessi mistök og voru fljótir að koma boltanum fram völlinn og á endanum náði framherjinn Daniil Utkin að skora af stuttu færi. Staðan í leikhléi 1-0 fyrir Krasnodar.

Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik skoraði Krasnodar sitt annað mark í leiknum og þar var á ferðinni Dmitri Stotskiy sem skoraði af stuttu færi inn í teig CSKA Moskvu eftir frábæran undirbúning hjá kantmanninum Wanderson.

Krasnodar er nú komið upp fyrir CSKA Moskvu í deildinni með sigrinum í dag. Krasnodar er í 3. sæti með 46 stig, tveimur stigum meira en CSKA Moskva, sem er í 4. sætinu. Fjórir leikir eru eftir í deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun