Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Jón Dagur skoraði sitt fyrsta mark fyrir AGF

Jón Dagur skoraði sitt fyrsta mark fyrir AGF í tapi í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Mynd/AGF

Jón Dagur Þorsteinsson skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir AGF í dönsku úrvalsdeildeildinni þegar liðið tapaði fyrir FC Kaupamannahöfn, 2-1, í kvöld.

Jón Dagur hóf leikinn á varamannabekk AGF en kom inn á sem varamaður og spilaði síðustu 25 mínúturnar í leiknum.

Pierre Bengtsson kom FC Kaupmannahöfn í forystu á 12. mínútu og Jonas Wind skoraði annað mark liðsins á 64. mínútu.

Jón Dagur, sem gekk til liðs við AGF frá enska liðinu Fulham í síðasta mánuði, skoraði markið sitt í leiknum á 81. mínútu með því að vippa boltanum í markið einn gegn markmanni, eins og sjá má í meðfylgj­andi mynd­bandi neðst í fréttinni.

Jón Dagur gerði þriggja ára samning við AGF en hann lék á síðustu leiktíð með Vendsyssel í dönsku úrvalsdeildinni að láni frá Fulham og átti gott tímabil, en hann skoraði 5 mörk og gaf 4 stoðsendingar í 30 leikjum með liðinu. Hann á þá að baki 3 A-landsleiki fyrir Ísland og eitt mark sem kom gegn Svíum í vináttulandsleik í janúar.

Eftir tvo leiki í dönsku úrvalsdeildinni er AGF með eitt stig eftir að hafa gert jafntefli við Hobro í 1. umferð deildarinnar fyrr í vikunni.

Á sama tíma í pólsku úrvalsdeildinni sat Böðvar Böðvarsson allan tímann á varamannabekknum hjá Jagiellonia Bialystok sem vann 3-0 sigur á útivelli gegn Arka Gdynia í 1. umferð deildarinnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið