Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jón Dagur skoraði en féll niður um deild

Jón Dagur var á skotskónum þegar Vendsyssel féll úr dönsku úrvalsdeildinni.

Mynd/Nordjyske

Jón Dagur Þorsteinsson og liðsfélagar hans í danska liðinu Vendsyssel féllu úr dönsku úrvalsdeildinni í dag eftir samanlagt 3-4 tap gegn Lyngby í fallumspili deildarinnar.

Vendsyssel var í dag að mæta Lyngby í seinni leik liðanna í fallumspili dönsku úrvalsdeildarinnar. Leikurinn endaði með 2-2 jafntefli og Jón Dagur skoraði fyrra mark Vendsyssel í leiknum en það dugði ekki til. Vendsyssel tapaði fyrri leiknum 1-2 og því samanlagt 3-4. Liðið er þar með fallið niður í dönsku B-deildina.

Gestirnir í Lyngby komust yfir í leiknum með marki á 11. mínútu og tvöfölduðu forystuna snemma í síðari hálfleiknum. Jón Dagur minnkaði metin fyrir Vendsyssel með marki úr vítaspyrnu á 66. mínútu og Tiemoko Konate jafnaði metin í 2-2 fyrir Vendsyssel rétt undir lok leiksins. Liðinu tókst ekki að bæta við þriðja markinu sem hefði getað knúið fram framlengingu.

Jón Dagur var að öllum líkindum að leika sinn síðasta leik fyrir Vendsyssel en hann er á lánssamningi hjá félaginu frá Fulham sem endurnýjaði samning hans fyrir nokkrum vikum.

Jón Dagur, sem er tvítugur, átti marga góða kafla með Vendsyssel á leiktíðinni. Hann lék 30 leiki fyrir liðið í öllum keppnum, skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fjögur.

Jón Dagur á að baki 3 A-landsleiki fyrir Ísland og í heild 34 leiki með yngri landsliðum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun