Fylgstu með okkur:

Fréttir

Jón Dagur orðinn leikmaður AGF

Jón Dagur hefur skrifað undir þriggja ára samning við danska félagið AGF.

Mynd/AGF

Jón Dagur Þorsteinsson hefur verið kynntur til leiks sem nýr leikmaður danska liðsins AGF frá Arósum, en hann kemur frá enska félaginu Fulham. Jón Dagur skrifar undir þriggja ára samning við AGF.

Jón Dagur, sem er 20 ára, lék á síðustu leiktíð með danska félaginu Vendsyssel á lánssamningi frá Fulham, sem nýtti sér fyrir skemmstu ákvæði og framlengdi samning hans við félagið um eitt ár.

Jón Dagur átti gott tímabil með Vendsyssel þar sem hann skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fjögur í 30 leikjum með liðinu.

433.is greindi frá því fyrir rúmum tveimur vikum að Jón Dagur hafi gengist undir læknisskoðun hjá AGF og myndi alfarið færa sig um set í Danmörku.

Þessi ungi og efnilegi leikmaður mun nú koma til móts við aðra leikmenn AGF í undirbúningi liðsins fyrir dönsku úrvalsdeildina sem hefst á nýjan leik um miðjan júlí.

Áður en Jón Dagur fór til Danmerkur stóð hann sig vel með bæði unglinga- og varaliði Fulham, en þar lék hann í rúm þrjú ár.

Jón Dagur á að baki 3 A-landsleiki fyrir Ísland og eitt mark sem kom gegn Svíum í vináttulandsleik í janúar. Jón Dagur bar fyrir nokkrum vikum fyrirliðaband U21 árs lið Íslands sem vann 2-1 sigur gegn Danmörku.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir