Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jón Dagur lagði upp í sigri gegn Hirti

Jón Dagur lagði upp eitt mark í góðum sigri AGF í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

ÍV/Getty

Það var Íslend­inga­slag­ur í dönsku úr­vals­deild­inni í dag þar sem AGF frá Árósum vann góðan heimasig­ur á Brønd­by, 2-1.

Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði AGF og lék fram á 82. mínútu á vinstri kantinum. Hjörtur Hermannsson lék sömuleiðis í 82 mínútur en í vörn Brøndby sem miðvörður hægra megin í þriggja manna vörn.

Mustapha Bundu kom AGF yfir eftir rúmlega hálftímaleik og staðan var 1-0 í hálfleik.

Jón Dagur lagði upp annað mark AGF um miðjan síðari hálfleikinn og átti það eftir að reynast mikilvægt þegar upp var staðið. Jón Dagur rak knöttinn inn í teig gestanna og átti sendingu á samherja sinn Patrick Mortensen sem skoraði með skalla af stuttu færi.

Brønd­by náði að minnka muninn niður í eitt mark á 76. mínútu leiksins en það dugði ekki til. Nær komust gestirnir í Brønd­by ekki og fór svo að AGF vann 2-1 sigur.

AGF er í 4. sæti deildarinnar með 29 stig og Brønd­by er í sætinu fyrir ofan með 31 stig eftir 17 umferðir.

Fyrr í dag spilaði Eggert Gunnþór Jónsson allan leikinn fyrir SønderjyskE sem gerði 2-2 jafntefli við Lyngby. Ísak Óli Ólafsson sat á varamannabekknum hjá SønderjyskE og Frederik Schram gerði slíkt hið sama hjá Lyngby.

SønderjyskE er í 10. sæti með 19 stig og Lyngby er í 9. sæti með 23 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun