Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Jón Dagur kom AGF á bragðið með glæsilegu marki

Jón Dagur kom AGF á bragðið með laglegu marki í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Mynd/AGF

Jón Dagur Þorsteinsson kom AGF frá Árósum á bragðið í 4-2 heimasigri á SønderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Jón Dagur lék fyrstu 66 mínútur leiksins á meðan Eggert Gunnþór Jónsson lék allan leikinn fyrir SønderjyskE. Ísak Óli Ólafsson lék þá síðustu sex mínúturnar sem varamaður fyrir SønderjyskE.

Jón Dagur skoraði fyrsta mark leiksins á 6. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs upp í vinkilinn, áður en liðsfélagi hans Bror Blume tvöfaldaði forystuna fyrir AGF á 26. mínútu með skoti úr teignum. Jón Dagur átti þátt í markinu en hann tók aukspyrnu og skrúfaði boltann fyrir. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir AGF.

Eft­ir leikhléið opnuðust flóðgátt­ir og fjögur mörk til viðbót­ar litu dags­ins ljós í síðari hálfleik. SønderjyskE minnkaði muninn eftir rúmlega klukkutíma leik en AGF skoraði þriðja mark sitt aðeins fjórum mínútum síðar eftir hornspyrnu og það var Jón Dagur sem átti horn­spyrnuna, sem leiddi til marksins.

SønderjyskE minnkaði aftur muninn á 68. mínútu en aðeins mínútu síðar skoraði Patrick Mortensen fjórða markið fyrir AGF og þar við sat. Lokatölur urðu 4-2, AGF í vil.

AGF er í 4. sæti deild­ar­inn­ar með 26 stig en SønderjyskE er í 10. sæt­i með 18 stig þegar 16 umferðir hafa verið leiknar í deildinni. Jón Dagur hefur nú skorað fjögur mörk fyrir AGF á leiktíðinni.

Frederik Schram sat allan tímann á varamannabekk Lyngby þegar liðið vann 4-3 sigur á Odense. Lyngby er í 9. sæti deildarinnar með 20 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið