Fylgstu með okkur:

Fréttir

Jón Daði þarf að taka á sig launa­lækk­un

Jón Daði þarf að vera tilbúinn til að taka á sig launalækkun, ef hann hefði áhuga á að fara til Millwall.

ÍV/Getty

Ensku liðin Reading og Millwall komust að samkomulagi í síðustu viku um kaupverð á Jóni Daða Böðvarssyni, leikmanni Reading, samkvæmt The Sun.

The Sun greindi frá því síðasta sunnudag að Reading hafi samþykkt 750.000 punda til­boð enska B-deild­ar­fé­lags­ins Millwall í Jón Daða.

Helsti ásteytingarsteinn viðræðanna hafa verið launagreiðslur Jóns Daða sem þarf að vera tilbúinn til að taka á sig launalækkun, ef hann hefði áhuga á að fara til Millwall. Frá þessu greinir Courtney Friday, blaðamaður Reading Chronicle.

Neil Harris, knattspyrnurstjóri Millwall, kveðst vongóður um að félögin nái samkomulagi um launagreiðslur Jóns Daða fyrir helgi og þar með er enn möguleiki á því að félagaskiptin verði að veruleika.

Eftir að frétt The Sun var birt síðasta sunnudag sló Fótbolti.net á þráðinn til Jóns Daða. Í stuttu samtali sagði hann að fréttaflutningur The Sun væri ótrúverðugur en því var skjótt eytt. Ekki er enn vitað af hverju það var gert.

Í síðustu viku vakti Íslendingavaktin athygli á því að framtíð Jóns Daða væri í húfi hjá Reading en honum var þá tjáð af félaginu að starfskrafta hans yrði ekki lengur óskað og var í kjölfarið skilinn eftir þegar liðið fór í æfingaferð til Spánar.

Jón Daði spilaði 20 leiki fyrir Reading í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð og skoraði 6 mörk.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir