Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jóhann Berg spilaði síðustu mínúturnar í sigri Burnley

Jóhann Berg spilaði lokamínúturnar í 2-0 sigri Burnley á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.

ÍV/Getty

Jóhann Berg Guðmundsson og liðsfélagar hans í Burnley unnu mikilvægan 2-0 sigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jóhann kom inn á sem varamaður á 87. mínútu leiksins og spilaði því lokamínúturnar.

Fyrir leikinn var Jóhann tæpur vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik með Íslandi gegn Andorra í síðustu viku.

Í upphafi leiks eða strax á 2. mínútu varð Conor Coady, varnarmaður Wolves, fyrir því óláni að skora í eigið net. Staðan í leikhléi 1-0 fyrir Burnley.

Annað mark Burnley leit síðan dagsins ljós á 77. mínútu og það var Dwight McNeil sem skoraði en Jóhann kom inn á í hans stað tíu mínútum síðar.

Jóhann og félagar færðust fjær fallsvæðinu með þessum sigri í dag. Liðið situr í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 33 stig eða fimm stigum frá beinu fallsæti.

Enginn Íslendingur kom við sögu í ensku B-deildinni í dag. Þeir Jón Daði Böðvarsson, leikmaður Reading, og Birkir Bjarnason, leikmaður Aston Villa, voru báðir ekki í leikmannahópi. Patrik Sigurður Gunnarsson sat þá allan tímann á varamannabekknum hjá Brentford sem gerði markalaust jafntefli við Wigan.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun