Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jóhann kom inn á í tapi Burnley – Tap hjá Rúnari Alex

Jóhann Berg og Rúnar Alex voru báðir í tapliðum í dag.

ÍV/Getty

Landliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á af varamannabekknum þegar Burnley tapaði fyrir toppliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Jóhann kom inn á þegar 76. mínútur voru liðnar af leiknum, en staðan var þá 0-1 fyrir Manchester City og þannig endaði leikurinn.

Það stefndi ýmislegt í markalausan leik í dag en Manchester City skoraði mark á 63. mínútu með miklum naumindum. Burnley virtist hafa náð að bjarga á línu eftir marktilraun Sergio Aguero en marklínutæknin mat það svo að boltinn hafi allur farið yfir línuna. Aðeins sentímetra munaði að markið fengi ekki að standa.

Jóhann og félagar í Burnley þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur af því að vera í fallhættu. Liðið er í 15. sæti með 40 stig, níu stigum frá fallsæti, þegar aðeins tveir leikir eru eftir.

Tap hjá Rúnari Alex í Frakklandi

Rúnar Alex Rúnarsson stóð í marki Dijon sem beið lægri hlut fyrir Caen, 1-0, í frönsku úrvalsdeildinni í dag.

Rúnar fékk mark á sig af löngu færi á 67. mínútu leiksins og liðsfélagar hans náðu ekki að svara fyrir sig.

Rúnar og félagar hans í Dijon voru fyrir leikinn í umspilsfallsæti en missa það sæti til Caen eftir tapið í dag og eru nú í fallsæti, fjórum stigum frá öruggu sæti. Fjórir leikir eru eftir í frönsku úrvalsdeildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun