Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jóhann Berg skoraði þegar Burnley byrjaði á ör­ugg­um sigri

Jóhann Berg skoraði í dag eitt mark fyrir Burnley þegar liðið vann góðan sigur í ensku úrvalsdeildinni.

ÍV/Getty

Burnley, lið Jóhanns Bergs Guðmundssonar, byrjaði tímabilið vel í ensku úrvalsdeildinni í dag með því að leggja lið Southampton að velli á heimavelli sínum, 3-0. Jóhann Berg lék allan tímann fyrir Burnley og skoraði þriðja og síðasta mark liðsins í leiknum.

Það var Ashley Barnes sem skoraði fyrsta mark Burnley um miðjan síðari hálfleik en hann var aftur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystuna og skoraði annað mark liðsins á 70. mínútu.

Jóhann Berg rak svo síðasta naglann í kistu Southampton með þriðja marki Burnley þegar hann skoraði með föstu og góðu skoti í fjærhornið innan teigs á 75. mínútu leiksins. Lokatölur 3-0.

Frábær byrjun hjá Jóhanni Berg og félögum hans í Burnley, sem endaði í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Á vef mbl.is er hægt að sjá markið hans Jóhanns í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson lék fyrstu 79. mínúturnar með Everton sem hóf leiktíðina í ensku úrvalsdeildinni með markalausu jafntefli á útivelli gegn Crystal Palace.

Gylfi fékk strax á 2. mínútu leiksins frábært færi en hann hitti boltann illa. Hann fékk annað gott færi í seinni hálfleik er hann átti fínt skot sem var bjargað á marklínu. Everton lék síðasta korterið í leiknum einum manni færri en hvorugt liðið náði ekki skora mark og var niðurstaðan markalaust jafntefli.

Everton endaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og félagið ætlar sér að gera mun betur í deildinni í ár.

Í ensku B-deildinni lék Jón Daði Böðvarsson sínar fyrstu mínútur fyrir Millwall sem gerði 1-1 jafntefli við West Bromwich Albion á útivelli.

Jón Daði hóf leikinn á varamannabekknum en var skipt inn á þegar um korter var eftir af leiknum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun