Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Jafntefli hjá Augsburg

Augsburg varð að láta sér lynda jafntefli gegn Freiburg í þýsku Bundesligunni.

ÍV/Getty

Alfreð Finnbogason og samherjar hans hjá Augsburg urðu að láta sér lynda 1-1 jafntefli gegn Freiburg á heimavelli sínum í þýsku Bundesligunni í dag.

Alfreð var í byrjunarliði Augsburg og lék í fremstu víglínu liðsins fyrstu 80 mínúturnar. Philipp Max kom Augsburg yfir á 38. mínútu og var staðan í hálfleik 1-0.

Síðari hálfleikurinn var ekki búinn að lifa lengi þegar næsta mark bar á garð en Freiburg jafnaði metin á 51. mínútu með marki frá Janik Haberer og þar við sat.

Augsburg er áfram í 11. sæti deildarinnar en nú með 27 stig eftir 22 leiki.

Á sama tíma sat Samúel Kári Friðjónsson allan tímann á varamannabekknum hjá Paderborn þegar liðið tapaði 2-1 gegn Herthu Berlín.

Samúel Kári hefur ekki enn spilað fyrir liðið og hefur verið ónotaður varamaður fjóra deildarleiki í röð. Paderborn er í botnsæti þýsku Bundesligunnar með 16 stig, fimm stigum frá því að komast í öruggt sæti.

Andri Rúnar Bjarnason var ekki í leikmannahópi Kaiserslautern er liðið tapaði 2-0 fyrir Braunschweig í þýsku C-deildinni. Kaiserslautern er í 13. sæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun