Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Íslend­ingaliðin komust áfram

Íslend­ingaliðin sem spiluðu í 1. um­ferð for­keppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar í kvöld komust öll áfram. 

Guðmundur Þórarinsson lagði upp mark fyrir Norrköping í kvöld. ÍV/Getty

Hjörtur Hermannsson var í kvöld á sínum stað í vörn Brøndby sem fór í heimsókn til finnska liðsins In­ter Tur­ku í seinni viðureign liðanna í 1. um­ferð undan­keppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar.

Brøndby hafði unnið fyrri leikinn örugglega, 4-1, en tapaði í kvöld 2-0. In­ter Tur­ku skoraði bæði mörkin á fyrstu ellefu mínútum seinni hálfleiks og Finnarnir þurftu eitt mark til viðbótar til að komast áfram en það kom ekki.

Hjörtur og félagar sluppu þar ágætlega með skrekkinn og unnu einvígið samanlagt 4-3 og mæta Lechia Gdansk frá Póllandi í 2. um­ferð keppninnar.

Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Norrköping sem vann 2-1 sigur á írska liðinu St. Patrick’s Athletic í seinni viðureign liðanna í kvöld. Norrköping vann fyrri leikinn 2-0 og einvígið samanlagt 4-1.

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 1-1, og allt stefndi í janftefli en Norrköping-liðið var ekki hætt og skoraði Kalle Holmberg sigurmark leiksins eftir fínan undirbúning frá Guðmundi, sem lék allan leikinn á miðjunni.

Liepaja frá Lett­landi verður næsti andstæðingur Norrköping í 2. umferð keppninnar.

Hólmar Örn Eyjólfsson lék ekki með búlgarska liðinu Levski Sofia sem sigraði slóvenska liðið Ruzom­berok, 2-0, í seinni viðureign liðanna í kvöld. Levski Sofia vann fyrri leikinn 2-0 og einvígið samanlagt 4-0. Hólm­ar Örn er enn að jafna sig á kross­bands­slit­um.

Arnór Ingvi Traustason lék þá ekki fyrir Malmö þegar liðið vann stórsigur á norður-írska liðinu Ballymena United, 4-0, í seinni viður­eign liðanna í kvöld. Malmö rótburstaði fyrri leiknum 7-0 og liðið vinnur einvígið samanlagt 11-0. Arnór Ingvi varð fyrir slæmum meiðslum um síðustu helgi í leik með Malmö í sænsku úrvalsdeildinni og búist er við því að hann verði lengi frá keppni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun