Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Ísak Snær skoraði fyrir Norwich

Ísak Snær var á skot­skón­um fyr­ir U23 ára lið Norwich í gærkvöldi.

Mynd/Norwich

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eitt mark fyrir U23 ára lið Norwich þegar liðið tapaði 3-2 fyrir Newcastle í deildarkeppni varaliða á Englandi í gærkvöldi.

Norwich lenti tveimur mörkum undir eftir 41. mínútu en liðið náði að minnka muninn niður í eitt mark í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Ísak Snær jafnaði metin í 2-2 fyrir Norwich á 64. mínútu, en hann lúrði þá á fjær og skoraði af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu. Hann lék allan leikinn í fremstu víglínu og bar fyrirliðabandið í leiknum.

Newcastle náði að skora þriðja markið á 73. mínútu og þar við sat í markaskorun í leiknum. Lokatölur urðu 3-2, Newcastle í vil.

Ísak Snær, sem er 18 ára gamall, skrifaði í febrúarmánuði síðastliðnum undir atvinnumannasamning við Norwich. Þetta var hans fyrsta mark á leiktíðinni eftir fjóra leiki en á síðustu leiktíð skoraði hann 5 mörk í 14 leikjum með U18 og U23 ára liðum félagsins.

Ísak er upp­al­inn hjá Aft­ur­eld­ingu og hef­ur spilað með U17, U18 og U19 ára landsliðum Íslands og verið fyr­irliði hjá U17 og U18.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun