Fylgstu með okkur:

Fréttir

Ingó vill að bróðir sinn fái fleiri tækifæri með landsliðinu

Ingó lýsir óánægju sinni vegna fárra tækifæra sem bróðir hans fær með íslenska landsliðinu.

Getty/Samsett

Ingólfur Þórarinsson, oftast þekktur sem Ingó Veðurguð, birti í gærkvöld færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann lýsir óánægju sinni vegna fárra tækifæra sem bróðir hans, Guðmundur Þórarinsson, fær með íslenska landsliðinu.

Guðmundur Þórarinsson, sem er 26 ára, er miðjumaður sænska félagsins Norrköping. Hann var nú á dögunum að leika æfingaleik með liði sínu gegn Arnóri Ingva Traustasyni og félögum hans í Malmö. Leiknum lauk með 4-1 sigri Norrköping.

Guðmundur átti góðan leik og lagði upp eitt mark í leiknum.

Guðmundur á fimm leiki að baki með íslenska A-landsliðinu. Allir þeir leikir hafa verið vináttulandsleikir í janúarverkefnum með landsliðinu.

Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Íslands, og aðstoðarmaður hans, Freyr Alexandersson, völdu síðasta fimmtudag 23 manna landsliðshóp Íslands sem spilar við Andorra næsta föstudag og Frakkland þremur dögum síðar í undankeppni Evrópumótsins 2020.

Ingó er ekki sáttur að bróðir sinn sé enn eina ferðina ekki í landsliðshópnum. Þá heldur hann því fram að það sé ekki nógu mikið fjármagn til að fylgjast með leikmönnum sem hafa ekki verið viðriðnir landsliðið upp á síðkastið.

„Gummi með enn einn frábæra leikinn fyrir eitt besta liðið á Norðurlöndunum. Því miður hefur hann aldrei fengið tækifæri í alvöru leik með landsliðinu. Það kemur vonandi seinna þegar það verður til fjármagn í að fylgjast með leikmönnum sem ekki eru í áskrift,“ sagði Ingó á Facebook-síðu sinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir