Fylgstu með okkur:

Fréttir

ÍA hagnaðist um 400 þúsund evrur vegna félagaskipta Arnórs til CSKA

ÍA fékk væna upphæð í kjölfar félagsskipta Arnórs Sigurðssonar til CSKA Moscow.

Arnór í leik með CSKA gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í lok síðasta árs. ÍV/Getty

Íþróttabandalag Akraness hagnaðist alls um 400 þúsund evrur, jafnvirði nærri 55 milljóna íslenskra króna, í kjölfar félagsskipta Arnórs Sigurðssonar frá sænska félaginu IFK Norrköping til rússneska félagsins CSKA Moscow í síðastliðnum ágústmánuði.

Þetta kemur fram í ítarlegri grein sem Eurosport í Frakklandi birti í dag þar sem fjallað er um unglingastarf Breiðabliks síðustu ár.

Upphæðirnar sem íslensk félög fá fyrir að selja efnilega leikmenn eru í sumum tilfellum ekki ýkja háar en félög hér á landi hafa skilað góðum hagnaði með því að setja klásúlur um prósentur af framtíðarsölum leikmanna.

Unglingastarf Breiðabliks hefur skilað frá sér mörgum efnilegum leikmönnum síðustu ár sem hafa náð mjög langt í atvinnumennsku.

Uppaldnir leikmenn Breiðabliks, á borð við Danijel Dejan Djuric (Midtjylland), Willum Þór Willumsson (BATE Borisov), Sveinn Aron Guðjohnsen (Spezia), Arnór Borg Guðjohnsen (Swansea), Elías Rafn Ólafsson (Midtjylland), Patrik Sigurður Gunnarsson (Brentford) og Andri Fannar Baldursson (á láni hjá Bologna) eru nefndir á nafn sem geta tryggt Breiðabliki fínan hagnað í komandi framtíð, líkt og í tilfelli ÍA með Arnór Sigurðsson.

Arnór, sem er einungis 19 ára, varð dýrasti leikmaður CSKA Moscow frá árinu 2014. Rússneska félagið greiddi alls fjórar milljónir evra fyrir þjónustu þessa efnilega leikmanns á lokadegi félagsskiptagluggans í fyrra haust.

Arnór hefur staðið sig vel á sinni fyrstu leiktíð fyrir CSKA Moscow, en hann hefur leikið 18 leiki í öllum keppnum og í þeim leikjum skorað þrjú mörk. Tvö þeirra marka voru gegn Roma og Real Madrid í Meistaradeild Evrópu. Til viðbótar þá skoraði hann tvö mörk í æfingaleik í síðasta mánuði.

Hér að neðan er hægt að sjá langt myndband af hápunktum Arnórs í atvinnumennskunni

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir