Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hörður og Arnór byrjuðu í sigri

Hörður Björgvin og Arnór voru báðir í eldlínunni fyrir CSKA Moskvu þegar liðið fór með sigur af hólmi í dag.

ÍV/Getty

Íslendingaliðið CSKA Moskva í rússnesku úrvalsdeildinni vann í dag 1-0 sigur á Akhmat í næstsíðustu umferð deildarinnar.

Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru báðir í byrjunarliði CSKA Moskvu í leiknum í dag. Hörður Björgvin lék allan leikinn í hjarta varnarinnar og hjálpaði liði sínu að halda markinu hreinu og þá var Arnór einn af sóknarmönnum liðsins en hann spilaði fyrstu 78. mínúturnar.

Tölfræðin úr leiknum gefur til kynna að leikurinn hafi verið nokkuð jafn en það bar til tíðinda á 65. mínútu leiksins þegar varnarmaður Akhmat gerðist brotlegur innan teigs og dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Fedor Chalov tók vítaspyrnuna fyrir CSKA Moskvu og skoraði af öryggi. Það reyndist eina markið í leiknum og lokatölur urðu 1-0 CSKA Moskvu í vil.

Með sigrinum fór CSKA Moskva langt með það að tryggja sér umspilssæti í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. 4. og 5. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar gefa sæti í þeirri keppni en liðið er sem stendur í 4. sæti deildarinnar með 48 stig. Ef Krasnodar, sem er í 3. sætinu með tveimur stigum meira en CSKA, misstígur sig á morgun í leik gegn Arsenal Tula og í síðustu umferðinni þá getur CSKA Moskva náð umspilssæti í Meistaradeild Evrópu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun