Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Hörður og Arnór á skotskónum í stórsigri CSKA – Sjáðu mörkin

Hörður Björgvin og Arnór voru báðir á skotskónum þegar lið þeirra CSKA Moskva vann stórsigur í dag.

Arnór fagnar marki sínu í dag. Mynd/sovsport.ru

Þeir Hörður Björgvin Magnússon og Arnór Sigurðsson voru báðir á skotskónum þegar lið þeira CSKA Moskva vann 6-0 stórsigur á heimavelli gegn Krylya Sovetov Samara í lokaumferð rússnesku úrvalsdeildarinnar í dag.

Fedor Chalov kom CSKA Moskvu yfir eftir aðeins 4. mínútur og staðan í leikhléinu var 1-0. Fljótlega í síðari hálfleiknum skoraði Hörður Björgvin af stuttu færi eftir sendingu frá Arnóri Sigurðssyni. Mark Harðar má sjá hér:

Ekki leið á löngu uns heimamenn í CSKA Mosvku bættu við þriðja markinu. Jaka Bijol skoraði markið á 52. mínútu og nokkru síðar kom fjórða markið hjá liðinu. Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson var þar á ferðinni þegar hann skoraði með skoti fyrir utan teig. Mark hans má sjá hér að neðan:

Þegar tæpar tuttugu mínútu voru eftir af venjulegum leiktíma skoraði Fedor Chalov fimmta mark CSKA Moskvu og jafnframt sitt annað mark í leiknum þegar hann lyfti knettinum glæsilega yfir markvörð Sovetov Samara. Á 80. mínútu leiksins gerði Ivan Oblyakov endanlega út um leikinn er hann skoraði sjötta markið fyrir CSKA.

Lokatölur í leiknum urðu 6-0 fyrir CSKA Moskvu sem endar leiktíðina í 4. sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar með 51 stig og hefur því tryggt sér þátttökurétt í Evrópudeildinni að ári.

Ragnar lék í tapi

Ragnar Sigurðsson lék allan tímann í vörn Rostov sem tapaði 0-1 fyrir FK Akhmat í rússnesku úrvalsdeildinni í dag. Björn Bergmann Sigurðarson var ónotaður varamaður hjá Rostov í leiknum.

Rostov missti Akhmat upp fyrir sig í stigatöflunni eftir tapið í dag og endar leiktíðina í 9. sæti með 41 stig.

Þá sat Jón Guðni Fjóluson allan tímann á varamannabekknum þegar lið hans Krasnodar vann 1-0 sigur á Rubin Kazan. Krasnodar endar leiktíðina í 3. sæti með 56 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið