Fylgstu með okkur:

Fréttir

Hörður í liði um­ferðar­inn­ar

Hörður Björgvin var valinn í úrvalslið nítjándu umferðar rússnesku úrvalsdeildarinnar.

Mynd: Championat

Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður CSKA Moscow, var valinn í úrvalslið nítjándu umferðar rússnesku úrvalsdeildarinnar af miðlinum Championat þar í landi.

Hörður var allan tímann í vörn CSKA sem vann 3-0 sigur á Rubin Kazan í rússnesku úrvalsdeildinni síðasta laugardag. CSKA situr í þriðja sæti deildarinnar, með 33 stig, þegar ellefu umferðir eru eftir af leiktíðinni.

Leikmaðurinn átti frábæran leik og liðfélagi hans, Mario Fernandes, var sá eini sem átti fleiri snertingar í leiknum.

Hörður stöðvaði mikilvæga skyndisókn Rubin Kazan í leiknum sem varð þess valdandi að CSKA náði skömmu síðar að skora sitt þriðja mark í leiknum.

Arnór Sigurðsson kom inn á sem varamaður á 85. mínútu og spilaði þar með lokamínúturnar í leiknum.

Arnór sagði í samtali við miðilinn Sports.ru að hann hafi verið tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla á ökkla.

„Ég átti í smávægilegum vandræðum með ökklann á mér og gat ekki æft á fullu tveimur dögum fyrir leikinn. Liðsheildin er aftur á móti mjög góð og hver og einn einasti leikmaður á skilið að vera í byrjunarliðinu. Það var mjög mikilvægt að ná í þrjú stig eftir að hafa tapað gegn Arsenal Tula um síðustu helgi,“ sagði Arnór í viðtali eftir leikinn.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir