Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Hörður Björgvin skoraði í þriðja sigri CSKA í röð

Hörður Björgvin var á skotskónum í sigri CSKA Moskvu í Rússlandi í dag.

Hörður Björgvin Magnússon skoraði eitt mark fyrir CSKA Moskvu þegar liðið vann sinn þriðja sigur í röð í rússnesku úrvalsdeildinni. Liðið vann þá 2-0 sigur á útivelli gegn Tambov.

Mörk CSKA Mosvku komu hins vegar ekki fyrr á lokakafla leiksins. Á 66. mínútu leiksins fékk CSKA Moskva víti og Fedor Chalov fór á punktinn en hann brást bogalistinn.

Kristijan Bistrovic skoraði síðan glæsimark fyrir CSKA Moskvu á 84. mínútu þegar hann lét vaða á mark Tambov fyrir utan teig og skaut boltanum upp í samskeytin hægra megin í markinu. Glæsilegt mark.

Hörður Björgvin innsiglaði svo sigur CSKA Moskvu á fjórðu mínútu uppbótartímans þegar hann átti laglega skottilraun fyrir utan teig og smellti boltanum neðst í hægra hornið. Laglega gert hjá okkar manni en markið má sjá neðst í fréttinni. Hörður lék allan leikinn en Arnór Sigurðsson var fjarverandi vegna meiðsla.

Lokatölur urðu 2-0 fyrir CSKA Moskvu sem hefur nú 19 stig í öðru sæti deildarinnar og er aðeins einu stigi á eftir toppliði Zenit frá Sankti Pétursborg eftir níu umferðir.

Fyrr í dag kom Viðar Örn Kjartansson inn af bekknum á 73. mínútu með liði sínu Rubin Kazan sem tapaði 2-1 fyrir Orenburg. Viðar Örn er á láni hjá Kazan frá Rostov.

Rubin Kazan er í 10. sætinu með 10 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið