Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hólmbert tryggði Álasundi sigur

Hólmbert Aron tryggði Álasundi sæti í 8-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í kvöld.

Hólmbert Aron. Mynd/Stavanger Aftenblad

Hólmbert Aron Friðjónsson tryggði Álasundi sæti í 8-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í kvöld með því að skora úrslitamarkið gegn Rosenborg í vítaspyrnukeppni.

Leikur liðanna endaði 1-1 og því þurfti að framlengja leikinn. Það dugði hins vegar ekki að bæta hálftíma við leiktímann, grípa þurfti til vítaspyrnukeppni til að ráða fram úrslit.

Davíð Kristján Ólafsson, Aron Elís Þrándarson og Hólmbert Aron voru í byrjunarliði Álasund í leiknum í kvöld. Aron Elís og Hólmbert léku allan leikinn en Davíð Kristjáni var vikið af velli með tvö gul spjöld rétt fyrir leikhléið. Daníel Leó Grétarsson var ekki í leikmannahópi Álasunds í kvöld. 

Niklas Castro kom Álasundi í 1-0 á 35. mínútu og tíu mínútum síðar fékk Davíð Kristján að líta rautt spjald en á 82. mínútu leiksins jafnaði Tore Reginiussen í 1-1 fyrir Rosenborg.

Álasund hafði betur í vítakeppninni, 5-4, með því að skora úr öllum spyrnum sínum.

Álasund sló síðast út Molde í 32-liða úrslitum og hefur nú slegið út Rosenborg.

Fyrr í dag var Dagur Dan Þórhallssson í eldlínunni í norsku bikarkeppninni en hann kom inn á sem varamaður og lék síðustu 25. mínúturnar fyrir Mjøndalen í 3-0 sigri liðsins gegn Kongsvinger. Samúel Kári Friðjónsson vermdi þá varamannabekkinn hjá Viking sem vann 5-2 sigur á Stabæk.

Íslendingaliðin Álasund, Mjøndalen og Viking eru því öll komin áfram í 8-liða úrslit norsku bikarkeppninnar.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun