Fylgstu með okkur:

Fréttir

Hólmar val­inn maður leiks­ins – „Hver leikur er skref fram á við“

Hólmar Örn var út­nefnd­ur maður leiks­ins fyr­ir frammistöðu sína með Levski Sofia í kvöld.

Mynd/Diema Sport

Hólmar Örn Eyjólfsson var út­nefnd­ur maður leiks­ins hjá búlgörsku sjónvarpstöðinni Diema Sport fyr­ir frammistöðu sína með Levski Sofia í kvöld.

Hólmar Örn skoraði seinna mark Levski Sofia með skalla eft­ir horn­spyrnu á 23. mín­útu þegar liðið sigraði Dunav Ruse, 2-0, í kvöld.

Á síðasta ári sleit Hólmar kross­band í hné en hann hefur jafnað sig vel og byrjaði að spila með Levski á ný í haust eft­ir tæplega tíu mánaða fjar­veru vegna meiðslanna.

Í viðtali við Diema Sport í leikslok var Hólmar spurður hvernig það væri að vera kominn aftur inn á völlinn og að spila svona marga leiki í röð eftir meiðslin.

„Hver leikur er skref fram á við fyrir mig persónulega. Það eru að koma fleiri augnablik inn á milli þar sem ég finn ekkert fyrir meiðslunum. Ég þarf að halda áfram að vinna í ákveðnum hlut­um, en í augnablikinu líður mér mjög vel,“ sagði Hólmar Örn.

Þá var Hólmar spurður út í möguleikann á að vera valinn í íslenska landsliðið á ný.

„Eitt af persónulegum markmiðum mínum er að komast aftur í landsliðið. Við eigum tvo mikilvæga leiki fyrir höndum. Ég tel mig eiga möguleika á að vera valinn aftur, en við skulum sjá hvað gerist eftir viku“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir