Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hólmar Örn sneri aft­ur í sig­ur­leik

Hólmar Örn sneri í kvöld aftur á völlinn og fagnaði sigri með liði sínu eft­ir tíu mánaða fjar­veru vegna meiðsla.

Hólmar Örn Eyjólfsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Levksi Sofia síðan í lok október á síðasta ári, þegar lið hans sótti Vitosha Bistritsa heim í 6. umferðinni í úrvalsdeildinni í Búlgaríu í kvöld.

Levksi Sofia vann leikinn 4-0. Hólmar Örn hóf leikinn á varamannabekknum en var skipt inn á þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Hólmar Örn sleit krossband í hné í lok október á síðasta ári og hefur verið í endurhæfingu síðan þá. Þetta var þar með fyrsti leikur hans eftir meiðslin.

Levski er á toppi búl­görsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eft­ir sex um­ferðir.

Aron Bjarnason kom inn á sem varamaður á 77. mínútu með liði sínu Újpest sem gerði 1-1 jafntefli við Paksi í úrvalsdeildinni í Ungverjalandi í kvöld. Újpest er í 6. sætinu með 4 stig eftir þrjár umferðir.

Þá sat Böðvar Böðvarsson á varamannabekknum hjá Jagiellonia Bialystok þegar liðið vann 3-1 sigur á Gornik Zabrze á heimavelli sínum í pólsku úrvalsdeildinni. Jagiellonia er í 3. sæti með 8 stig eftir fimm leiki. Adam Örn Arnarson var ekki í leikmannahópi Gornik Zabrze, sem er í 7. sæti með 7 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun