Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Hólmar Örn skoraði í sigri

Hólmar Örn skoraði mark með skalla í Búlgaríu í kvöld.

Hólmar Örn Eyjólfsson skoraði seinna mark Levski Sofia þegar liðið vann Dunav Ruse, 2-0, í búlgörsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Levski Sofia komst yfir á 15. mínútu er leikmaður Dunav Ruse varð fyrir því óhappi að skora í eigið mark. Hólmar Örn, sem lék allan leikinn, tvöfaldaði síðan forystuna fyrir Levski Sofia á 23. mínútu leiksins. Markið kom eftir hornspyrnu þar sem Hólmar fékk boltann inni í miðjum vítateig og skallaði í netið.

Lokatölur urðu 2-0 fyrir Levski Sofia, sem er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig, fjórum stigum minna en topplið Ludogorets eftir 14 umferðir.

 

Rostov komst ekki áfram

Íslendingaliðið Rostov er úr leik í rússnesku bikarkeppninni eftir 2-1 tap gegn Spartak Moskvu í 16-liða úrslitum keppninnar í kvöld.

Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Rostov og lék í 71. mínútu en Ragnar Sigurðsson var allan tímann á varamannabekknum.

Jordan Larsson kom Spartak Moskvu yfir rétt fyrir hálfleik og hann tvöfaldaði síðan forystuna fyrir liðið eftir rúmlega klukkutíma leik. Alexander Dolgov náði að klóra í bakkann fyrir Rostov undir lokin en lokatölur urðu 2-1 fyrir Spartak Moskvu, sem mun mæta Íslendingaliðinu og grönnum sínum í CSKA Moskvu í 8-liða úrslitunum.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið