Fylgstu með okkur:

Fréttir

Hólmar Örn orðaður við Bournemouth

Enska úrvalsdeildarliðið Bournemouth er sagt vera að íhuga til­boð í Hólmar Örn.

Mynd/sportal.bg

Varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson, leikmaður Levski Sofia í Búlgaríu, er í dag orðaður við enska úrvalsdeildarliðið Bournemouth.

Fréttavefurinn 90.min greinir frá þessu og þar er sagt að Bournemouth sé að íhuga að gera Levski Sofia tilboð í íslenska miðvörðinn áður en lokað verður fyr­ir fé­laga­skipti um mánaðamót­in. Fótbolti.net vakti athygli á þessu í dag.

Bournemouth hefur verið í miklum vandræðum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og er í fallbaráttu, situr í 18. sæti deildarinnar, eftir 24 leiki. Liðið hefur fengið á sig alls 37 mörk og Eddie Howe, knattspyrnustjóri liðsins, hef­ur í hyggju að styrkja varnarleik sinn á allra næstu dögum.

Hólmar Örn hef­ur átt góðu gengi að fagna með Levski Sofia á leiktíðinni og er í toppbaráttu með liðinu í Búlgaríu, en hann hefur t.a.m. skorað þrjú mörk á þessari leiktíð.

Hólmar Örn hefur áður verið á Englandi en hann var á mála hjá enska úrvalsdeildarliðinu West Ham United árin 2008 til 2011, án þess þó að spila leik með aðalliðinu. Hólmar lék hins vegar á lánssamningi hjá Cheltenham Town í ensku D-deilinni tímabilið 2009-10.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir