Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hólmar Örn á toppn­um – Ari Freyr lagði upp í tapi

Hólmar Örn er á toppi búlgörsku úrvalsdeildarinnar með liði sínu Levski Sofia eftir sigur í kvöld.

Hólmar Örn Eyjólfsson er á toppi búlgörsku úrvalsdeildarinnar með liði sínu Levski Sofia eftir sigur á grannaliðinu Slavia Sofia, 2-0, á útivelli í kvöld.

Levski Sofia var beittari aðilinn í leiknum og liðið verðskuldaði sigurinn en bæði mörkin hjá liðinu komu á lokakafla leiksins. Fyrra markið gerði Filipe Nascimento á 73. mínútu og Stanislav Ivanov hið síðara á 81. mínútu.

Hólmar Örn lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Levski en þetta var annar byrj­un­arliðsleik­ur hans í röð með liðinu. Hann var um síðustu helgi í fyrsta skipti í byrjunarliði liðsins í rúmt eitt ár.

Hólmar Örn sleit krossband í hné í lok október á síðasta ári og var því búinn að vera lengi frá keppni. Hann hefur nú leikið fimm deildarleiki á leiktíðinni en fyrir síðasta leik hafði hann þrívegis komið við sögu sem varamaður.

Levski Sofia er nú með 23 stig á toppi deildarinnar, tveimur stigum á undan Ludogorets Razgrad sem spilar á morgun við Arda Kardzhali.

Ari Freyr átti stoðsendingu fyrir Oostende

Ari Freyr Skúlason var í byrjunarliði Oostende sem tapaði fyrir Genk, 3-1, í belgísku úrvalsdeildinni í kvöld.

Oostende lenti undir á 16. mínútu þar sem leikmaður liðsins skoraði sjálfsmark en liðið jafnaði metin eftir rúmlega hálftíma leik þegar Idrissa Sylla skoraði skallamark eftir góða fyrirgjöf frá Ara Frey, sem lék allan leikinn í stöðu vinstri bakvarðar.

Genk náði aftur forystunni undir lok fyrri hálfleiks og liðið endaði síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri með því að skora þriðja markið rétt undir lok venjulegs leiktíma. Lokatölur 3-1, Genk í vil.

Oostende er í 11. sætinu með 10 stig eftir fyrstu átta leikina.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun