Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hjörtur og Adam Örn í sig­urliðum

Hjörtur Hermannsson og Adam Örn Arnarson voru báðir í sigurliðum í dag.

ÍV/Getty

Hjörtur Hermannsson og félagar í Brøndby báru sigur úr býtum gegn Midtjylland, 1-2, í dönsku úrvalsdeildinni í dag.

Hjörtur lék í dag að venju sem miðvörður í liði Brøndby og átti fínan leik.

Brøndby lenti undir strax á 9. mínútu en jafnaði metin þremur mínútum síðar. Jens Gammelby skoraði sigurmarkið fyrir Brøndby korteri fyrir leikslok.

Brøndby leikur í efra umspili dönsku úrvalsdeildarinnar ásamt fimm liðum. Brøndby er í 5. sætinu með 43 stig. Sigurinn í dag var sá fyrsti hjá liðinu í umspilinu.

Hjörtur og félagar komust fyrir tveimur vikum í bikarúrslit í dönsku bikarkeppninni eftir að hafa unnið 1-0 sigur á Álaborg í undanúrslitum. Þeir leika til úrslita gegn Midtjylland þann 17. maí nk.

Adam Örn kom við sögu í sigri Gornik Zabrze

Adam Örn Arnarson var einnig í sigurliði í dag þegar Gornik Zabrze vann heimasigur á Arka Gdynia, 1-0, í fallriðli pólsku úrvalsdeildarinnar.

Adam byrjaði leikinn á varamannabekknum hjá Gornik Zabrze en var skipt inn á þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.

Adam var í dag að leika sinn áttunda leik með Gornik Zabrze en hann gekk í raðir félagsins í byrjun febrúar og gerði eins og hálfs árs samning.

Gornik Zabrze endaði í 12. sæti deildarinnar og var í dag að spila fyrsta leikinn í fallriðli deildarinnar. Liðið er sem stendur í 3. sæti riðilsins með 34 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun