Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Hjörtur í sigurliði – Norrköping ekki unnið í síðustu fjórum leikjum

Þrír Íslendingar voru í eldlínunni á Norðurlöndunum í kvöld.

ÍV/Getty

Hjörtur Hermannsson og samherjar hans í Brøndby unnu nokkuð þægilegan 2-0 heimasigur á Nordsjælland í meistaraumspili dönsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Hjörtur lék í stöðu miðvarðar hjá Brøndby og spilaði allan leikinn. Mikael Uhre kom Brøndby á bragðið eftir hálftíma leik og aðeins fimm mínútum síðar skoraði Dominik Kaiser annað mark liðsins eftir góða fyrirgjöf frá hægri bakverðinum Jens Gammelby. Ekki var skorað í seinni hálfleik og leikurinn endaði því með 2-0 sigri heimamanna í Brøndby.

Brøndby var í kvöld að leika sinn áttunda leik í umspilinu og er í 5. sætinu með 46 stig.

Föstudaginn 17. maí næstkomandi mun Brøndby mæta Midtjylland í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar.

Gummi Tóta og félagar hafa ekki unnið í síðustu fjórum leikjum

Guðmundur Þórarinsson, betur þekktur sem Gummi Tóta, spilaði í kvöld allan tímann með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni þegar liðið tapaði fyrir Göteborg, 1-2, á heimavelli.

Gummi Tóta var ekki leikmannahópi Norrköping í síðustu umferð en var í kvöld í byrjunarliðinu og lék allan leikinn.

Norrköping hefur ekki farið nógu vel af stað í sænsku úrvalsdeildinni eftir fyrstu átta leikina og er aðeins í 11. sæti deildarinnar með 8 stig.

Samúel Kári lék í markalausum leik

Samúel Kári Friðjónsson var þá í byrjunarliði Viking sem gerði markalaust jafntefli við Strømsgodset í norsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Viking hefur spilað sjö leiki á leiktíðinni og Samúel Kári hefur spilað í þeim öllum. Liðið er í 6. sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 11 stig.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun