Fylgstu með okkur:

Fréttir

„Hefur verið ein hreinasta hörmung“

Íslenskur stuðningsmaður Everton til margra ára lá ekki á skoðunum sín­um varðandi samlanda sinn Gylfa Þór.

ÍV/Getty

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og stuðningsmaður Everton til margra ára, lá ekki á skoðunum sín­um í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu síðasta laugardag varðandi lið sitt og samlanda sinn Gylfa Þór Sigurðsson sem leikur með liðinu.

Þórður er ánægður með að Íslendingur sé að spila með Everton en segir að Gylfi Þór sé búinn valda feykilega miklum vonbrigðum hjá liðinu.

„Maður hefur sterkar taugar til landa sinna sem eru að afreka eitthvað á íþróttasviðinu sama hver það er. Það er gaman að hafa Íslending í liðinu sem maður heldur með en það verður að segjast eins og er þar sem ég horfi á því miður hverja mínútu af öllum Everton leikjum og hef séð meira af Gylfa Þór Sigurðssyni en all flestir þá hefur hann valdið feykilega miklum vonbrigðum,“ sagði Þórður.

Gylfi átti góðu gengi að fagna með Everton á síðustu leiktíð en Þórður segir hann vera of mikinn skorpuleikmann og þurfi ákveðinn stöðugleika í leik sinn.

„Það er ýmislegt sem faldi það í fyrra, ef þú horfir á statístíkina í fyrra þá var hann að búa til færi og skora mörk. Skoraði fjórtán mörk sem er mjög vel gert fyrir leikmann sem er að spila í hans stöðu en vandamálið er að hann er alltof mikill skorpuleikmaður og var að koma inn í leiki endrum og sinnum en var ekki að vera þessi stöðugleiki í sköpun sem var verið að leitast eftir og það sem leikskipulagið gekk út á.“

Þá segir Þórður að Gylfi sé búinn að vera ein hreinasta hörmung á þessari leiktíð og heldur að það sé best að hann yfirgefi liðið.

„Í ár hefur hann verið ein hreinasta hörmung og í mjög slöku liði og að jafnaði einn slakasti leikmaðurinn. Manni sýnist að það hljóti að vera annað hvort núna eða næsta sumar að leiðir muni skilja. Ég held að það sé best fyrir hann og klúbbinn.“

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir