Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Gylfi Þór hafði betur gegn Jóhanni Berg

Gylfi Þór hafði betur gegn Jóhanni Berg í Íslendingaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

ÍV/Getty

Burnley og Everton mættust í Íslendingaslag í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson var á sínum stað í byrjunarliði Everton og Jóhann Berg Guðmundsson var aftur mættur í byrjunarlið Burnley.

Heimamenn í Everton komust yfir á 17. mínútu leiksins þegar varnarmaðurinn Ben Mee varð fyrir því óhappi að fá boltann í sig og í sitt eigið net eftir skottilraun Richarlison. Gylfi Þór hafði gefið sendingu á Richarlison áður en hann náði skoti á markið en Gylfi fær ekki skráða stoðsendingu, því markið var sjálfsmark.

Nokkrum mínútum eftir sjálfsmarkið var Everton aftur á ferðinni. Að þessu sinni átti Lucas Digne góða skottilraun sem Heaton í marki Burnley náði að verja en honum tókst ekki að ná valdi á boltanum og Seamus Coleman var mættur fyrir framan markið og náði frákastinu og skoraði af stuttu færi. Það reyndist síðasta markið í leiknum og lokatölur urðu 2-0 fyrir Everton.

Jóhann Berg fór af velli á 69. mínútu í leiknum og þá fór Gylfi Þór sömuleiðis af velli í uppbótartímanum í síðari hálfleik.

Gylfi Þór og félagar eiga enn möguleika á að að enda í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sem gefur sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. Wolves er í því sæti með 54 sitg en Everton er með einu stigi minna í 8. sætinu.

Jóhann Berg og félagar hans í Burnley eru þá í engri hættu á að falla úr ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í 15. sæti með níu stigum meira en Cardiff, sem er í fallsæti.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun