Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Gylfi skoraði í sigri Everton

Gylfi Þór var á skotskónum með Everton sem sigraði Chelsea 2-0 í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Úr leiknum í dag. ÍV/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í dag eitt mark í 2-0 sigri Everton á Chelsea í síðasta leik ensku úrvalsdeildarinnar fyrir landsleikjahlé.

Gylfi Þór var í dag að skora sitt 12 mark í deildinni á leiktíðinni og jafnframt sitt 58 mark í ensku úrvalsdeildinni.

Í síðasta mánuði komst Gylfi fram úr Eiði Smára Guðjohnsen yfir fjölda marka skoruð í ensku úrvalsdeild­inni. Eiður gerði í heild 55 mörk með Chelsea á sínum tíma.

Everton komst yfir í leiknum með marki frá Richarlison þegar aðeins fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Chelsea-menn gerðust brotlegir innan teigs eftir rúmlega sjötíu mínútna leik og Everton fékk því víti.

Gylfi steig á punktinn fyrir Everton og lét síðan verja frá sér en hann fékk boltann aftur til sín í frákasti og gat ekki annað gert en að skora annað mark Everton í leiknum.

Þar við sat í markaskorun í leiknum og niðurstaðan 2-0 heimasigur hjá Gylfa og félögum hans í Everton.

Everton er enn í 11. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, með 40 stig, þegar liðið á sjö leiki eftir í deildinni.

Mark hans má sjá hér að neðan

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið