Fylgstu með okkur:

Fréttir

Gylfi og Jón Daði fengu lág­ar ein­kunn­ir

Gylfi Þór og Jón Daði fengu ekki háar ein­kunn­ir eftir sína leiki á Englandi í dag.

Gylfi í leiknum í dag. ÍV/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans hjá Everton fá flestir lága einkunn í enskum fjölmiðlum eftir 2-0 tapið fyrir Sheffield United fyrr í dag.

Í umsögn um Gylfa hjá Liverpool Echo, sem er staðarmiðill í Liverpool, segir að hann hafi átt fína byrjun í leiknum, fundið auð svæði og búið til nokkur marktækifæri fyrir samherja sína en þegar leið á leikinn versnaði frammistaðan. Gylfi fær 5 í einkunn hjá Liverpool Echo.

Gylfi fær hins vegar lægstu einkunn allra hjá Sky Sports. Þar fær hann aðeins 3 í einkunn.

Everton hefur ekki unnið síðustu tvo leiki sína í deildinni, en liðið er í 13. sæti deildarinnar með 7 stig eftir fyrstu sex umferðirnar. Gylfi hefur ekki enn skorað fyrir liðið í deildinni en hann er með eina stoðsendingu og hefur þá skorð eitt mark í deildabikarnum.

Jón Daði Böðvarsson spilaði fyrstu 69 mínúturnar með Millwall þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Queens Park Rangers á heimavelli í ensku B-deildinni í dag.

Staðarmiðilinn News Shopper gefur Jóni Daða 4 í einkunn fyrir hans frammistöðu í leiknum. Í umsögn miðilsins um Jón Daða segir að hann hafi fengið litla þjónustu en ekki tekist nógu vel að koma liði sínu framar á völlinn. Þá er sagt að hann hafi átt góð hlaup en ógnaði ekki nógu mikið fram á við.

Millwall er í 16. sæti deildarinnar með 9 stig eftir átta leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir