Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Gylfi með mark tímabilsins hjá Everton

Gylfi Þór skoraði mark tímabilsins hjá Everton að mati stuðningsmanna félagsins.

ÍV/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson átti mark árs­ins í vali stuðnings­manna enska liðsins Everton.

Gylfi Þór skoraði magnað mark af löngu færi gegn Leicester í októbermánuði á síðasta ári og er hægt að sjá það frá mismunandi sjónarhornum hér að neðan. Valið á besta marki Everton á leiktíðinni stóð á milli Gylfa Þórs, Lucas Digne og Andre Gomes, en Gylfi hneppti hnossið að lokum.

Sjá einnig: Gylfi bestur hjá Everton í apríl að mati stuðningsmanna

Í dag birtist viðtal við Gylfa Þór á heimasíðu Everton og þar tileinkar hann markinu stuðningsmönnum félagsins.

„Við erum að spila fótbolta fyrir stuðningsmenn félagsins sem horfa á alla leiki okkar. Það er því mikill heiður að skora mark tímabilsins hjá liðinu, sérstaklega í ljósi þess að það voru stuðningsmennirnir sem kusu það. Það þýðir að þeir eru ánægðir en við höfum ávallt haft það leiðarljósi að gleðja þá með spilamennsku okkar,“ segir Gylfi.

Markið umtalaða hjá Gylfa Þór var einstakt, því hann tók við boltanum með markið í bak, sneri sér hratt við og tók eina snertingu til viðbótar áður en hann lét vaða á markið með skoti af löngu færi sem fór yfir Kasper Schmeichel í marki Leicester.

„Ég ætlaði fyrst að gefa til baka en ég náði að snúa mér, tók eina snertingu, leit upp og sá að markmaðurinn var í hæfilegri fjarlægð frá markinu en samt nokkuð nálægt því. Ég hugsaði með mér að láta til skarar skríða og koma boltanum yfir markmanninn. Ég hef skorað nokkur góð mörk en þetta er eitt af mínum uppáhalds.“

Gylfi var einn mikilvægasti leikmaður Everton á leiktíðinni og missti ekki af einum einasta leik með liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Hann spilaði alla 38 leikina í deildinni og þar af 36 sinnum í byrjunarliðinu.

Hann átti þátt í 19 mörkum Everton á leiktíðinni en hann skoraði 13 mörk og lagði upp önnur sex.

Til viðbótar var Gylfi á lista yfir þá leikmenn sem hlupu hvað mest í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Hann hljóp samtals 401,3 kílómetra í þeim 38 leikjum sem hann spilaði. Þá var hann í 8. sæti yfir flestar fyrirgjafir (196 talsins) og í 11. sæti yfir flestar skottilraunir (86 talsins).

Mynd/Sun

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið