Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Gylfi með mark og stoðsendingu í stórsigri á Manchester United

Gylfi Þór skoraði eitt mark og lagði upp annað í 4-0 stórsigri Everton á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Gylfi fagnar marki sínu í dag. ÍV/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt mark og átti stoðsendingu í 4-0 stórsigri Everton á Manchester United í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Everton var mikið betri aðilinn í öllum leiknum í dag og skoraði verðskuldað mark strax á 13. mínútu leiksins þegar Richarlison klippti boltann yfir David De Gea í marki Manchester United og í netið. Um korteri síðar skoraði Gylfi annað mark Everton með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. 2-0 fyrir Everton í leikhléi.

Eftir tíu mínútur í seinni hálfleik skoraði Lucas Digne þriðja markið fyrir Everton sem var einnig fyrir utan teig líkt og mark Gylfa.

Everton-liðið var ekki hætt eftir þriðja markið því aðeins átta mínútum eftir mark Digne bætti Theo Walcott við fjórða marki liðsins. Gylfi lagði upp markið þegar hann gaf stungusendingu inn fyrir á Theo Walcott sem var slopinn í gegn langt frá marki og endaði með því að afgreiða knöttinn snyrtilega framhjá De Gea í markinu. Lokatölur 4-0 stórsigur Everton gegn Manchester United.

Gylfi hefur heldur betur reynst Manchester United erfiður í gegnum tíðina í ensku úrvalsdeildinni, en hann hefur nú komið að alls níu mörkum gegn Manchester United, fimm sinnum skorað og fjórum sinnum lagt upp.

Með sigrinum fara Gylfi og félagar upp í 49 stig og upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Mark Gylfa í leiknum er hér að neðan:

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið