Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Gylfi lagði upp mark í góðum sigri

Gylfi Þór átti stoðsendingu í sigri Everton gegn Wolves í ensku úr­vals­deild­inni í dag.

Gylfi Þór í leiknum í dag. ÍV/Getty

Gylfi Þór Sigurðsson og liðsfélagar hans hjá Everton unnu flottan 3-2 heimasigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn byrjaði fjöruglega og fyrstu þrjú mörkin í leiknum komu á fyrsta stundarfjórðungi leiksins.

Everton skoraði fyrsta mark leiksins eftir afar klaufaleg mistök í vörn Wolves. Varnarmaðurinn Conor Coady átti misheppnaða sendingu til baka á markvörðinn Rui Patricio sem náði ekki valdi á boltanum og sem varð til þess að hann hrökk til Moise Kean í fremstu víglínu Everton. Kean kom boltanum til hægri á Richarlison sem skoraði framhjá Patricio í markinu.

Aðeins þremur mínútum síðar jafnaði Wolves metin. Adama Traoré átti laglega fyrirgjöf inn í teig heimamanna á liðsfélaga sinn Romain Saiss sem var á réttum stað og skoraði af stuttu færi.

Á 12. mínútu leiksins fékk Gylfi Þór boltann ofarlega hægra megin á vellinum og átti glæsilega sendingu á Alex Iwobi sem skoraði skallamark af stuttu færi inn í teig.

Í kjölfar skallamarksins áttu bæði lið fínar tilraunir en ekki komu fleiri mörk í fyrri hálfleiknum og staðan því 2-1 fyrir Everton í leikhléinu.

Þegar um korter var eftir af venjulegum leiktíma náði Woves að jafna leikinn á nýjan leik. Liðið tók langt einkast og varnarmaðurinn Willy Boly náði skalla á fjærstöngina til Jiménez sem kom boltanum í netið með skallatilraun af stuttu færi.

Fimm mínútum síðar náði Everton enn og aftur forystunni í leiknum. Lucas Digne átti flotta sendingu frá vinstri og í teignum gerði Richarlison sér lítið fyrir og kom sér framhjá varnarmanninum stæðilega Willy Boly og skallaði boltann í fjærhornið og framhjá Patricio í markinu. Þetta reyndist sigurmark leiksins og lokatölur urðu 3-2, Everton í vil.

Everton hefur 7 stig í 5. sæti deildarinnar eftir fjóra leiki. Liðið leikur næst við Bournemouth á útivelli eftir tvær vikur.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun