Fylgstu með okkur:

Fréttir

Gylfi heimsótti grunnskólabörn og kenndi þeim nokkur orð í íslensku

Gylfi lét gott af sér leiða þegar hann heimsótti grunnskólabörn í Liverpool í síðustu viku.

Mynd/Everton

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Everton, lét gott af sér leiða í síðustu viku þegar hann heimsótti grunnskólabörn í Liverpool, ásamt liðsfélaga sínum Kurt Zouma.

Zouma kemur frá Frakklandi og hann var einmitt í leikmannahópi aðallandsliðsins sem sigraði íslenska landsliðið 4-0 á mánudagskvöld í undankeppni EM 2020.

Leikmennirnir tveir skiptu sér í tvo litla hópa með grunnskólabörnunum og kynntu þeim fyrir heimalöndum sínum.

Þeir töluðu um daglegt amstur fólks hvaðan þeir kæmu, kenndu nokkur orð á sínum móðurmálum og fóru yfir matar- og drykkjarvenjur. Gylfi mætti að sjálfsögðu með skyrið góða.

„Það var gaman að hitta börnin og ég held að þau hafi haft mjög gaman af þessu,“ sagði Gylfi.

„Það var mjög skemmtilegt að sjá þau kynnast öðrum löndum og tungumálinu sem er talað þar. Ég er nokkuð viss um að þetta hafi verið mjög skemmtileg stund fyrir þau.“

„Sjálfur man ég enn þá eftir því þegar ég hitti leikmenn sem voru þá að spila fyrir landsliðið og ég leit upp til. Maður gleymir ekki slíkum stundum og ég held að þessir krakkar munu ekki gleyma þessum degi.“

Hér að neðan má sjá myndband af heimsókn þeirra liðsfélaga

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir