Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Gummi Tóta var öfl­ug­ur gegn meist­ur­un­um

Gummi Tóta fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína með Norrköping þegar liðið sigraði AIK í kvöld.

Mynd/Sveriges Radio

Guðmundur Þórarinsson, eða Gummi Tóta eins og hann er kallaður, átti góðan leik á miðjunni fyrir Norrköping þegar það mætti ríkj­andi meist­ur­um í AIK í 13. umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Leikurinn fór fram á Friends Arena sem er heimavöllur AIK.

Guðmundur lék allan leikinn á miðjunni hjá Norrköping og fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína í leiknum, en hann fékk til að mynda 8 í einkunn hjá miðlinum Klackspark í Svíþjóð.

Guðmundur fékk á 24. mínútu leiksins að líta gult spjald. Rétt undir lok fyrri hálfleiks skoraði Christoffer Nyman fyrir Norrköping og liðið fór inn í leikhlé með 1-0 forystu.

Panajotis Dimitriadism, leikmaður AIK, fékk eftir tíu mínútur í seinni hálfleik að líta beint rautt spjald og gestirnir í Norrköping nýttu sér það. Nokkrum mínútum síðar skoraði Christoffer Nyman sitt annað mark í leiknum og lokatölur í leiknum urðu 2-0, Norrköping í vil.

Norr­köp­ing er komið upp í 6. sæti deildarinnar og upp í 21 stig eftir úrslit kvöldsins. AIK er í 3. sæti með 24 stig. Kolbeinn Sigþórsson leikur fyrir AIK en hann var ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld. Allnokkrar líkur eru fyrir því að hann sé að glíma við meiðsli af einhverju tagi.

Í kvöld á sama tíma í Svíþjóð lék Arnór Ingvi Traustason í 67. mínútur með Malmö sem gerði 1-1 jafntefli í æfingaleik gegn HNK Gorica frá Króatíu.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun