Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Gummi Tóta lék í jafntefli – Sigur hjá Bjarna Mark

Guðmundur Þórarinsson spilaði í jafntefli á meðan Bjarni Mark var í sigurliði.

Guðmundur í leik með Norrköping á síðasta ári. ÍV/Getty

Selfyssingurinn Guðmundur Þórarinsson, betur þekktur sem Gummi Tóta, spilaði allar mínúturnar fyrir Norrköping sem gerði 2-2 jafntefli við Kalmar FF í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Um var að ræða leik í 3. umferð hjá Norrköping í deildinni og Gummi Tóta er búinn að spila allar mínúturnar það sem af er tímabilinu. Hann hefur í byrjun leiktíðar verið að spila í stöðu vinstri vængbakvarðar með Norrköping.

Fátt var um fína drætti í fyrri háfleik en sá seinni var vægast sagt fjörugur.

Norrköping komst yfir eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleik með marki frá Jordan Larsson en sú forysta entist ekki lengi því stuttu síðar jafnaði Kalmar metin í 1-1.

Simon Thern skoraði annað mark Norrköping á 78. mínútu og kom liði sínu aftur í forystu. Enn og aftur entist sú forysta ekki lengi. Kalmar skoraði og jafnaði í 2-2 tveimur mínútum síðar. Lokaniðurstaða 2-2 jafntefli.

Norrköping er með tvö stig eftir fyrstu 3. umferðirnar í deildinni.

Bjarni Mark í sigurliði

Í sænsku B-deildinni var einn Íslendingur í eldlínunni. Bjarni Mark Antonsson lék allan tímann á miðjunni hjá IK Brage sem hrósaði 2-0 sigri á Halmstads. Höskuldur Gunnlaugsson leikur fyrir Halmstads og hann sat á varamannabekk liðsins í dag.

Eins og er þá trónir IK Brage á toppi sænsku B-deildarinnar með sjö stig en liðin í 2. og 3. sætinu, sem eru með 6 stig, eiga leik til góða og geta farið á toppinn.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun