Fylgstu með okkur:

Myndskeið

Gummi Tóta lagði upp sigurmarkið – Bjarni Mark á toppnum

Gummi Tóta lagði upp sigurmark Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Guðmundur Þórarinsson, betur þekkur sem Gummi Tóta, spilaði allan tímann fyrir lið sitt IFK Norrköping sem bar sigur úr býtum gegn Falkenbergs FF, 4-3, í fjórðu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í dag.

Gummi Tóta lék í stöðu vinstri vængbakvarðar í leiknum og hefur nú spilað allar mínúturnar það sem af er tímabilinu.

Alls voru þrjú mörk skoruð með skömmu millibili rétt fyrir leikhléið en Norrköping náði að skora á 37. mínútu og þremur mínútum síðar varð liðið fyrir því óláni að fá á sig sjálfsmark. Tveimur mínútum eftir sjálfsmarkið náði Norrköping aftur forystu með marki frá Jordan Larsson. Staðan í leikhléi var 2-1 Norrköping í vil.

Falkenbergs jafnaði metin í 2-2 á fjórðu mínútu í seinni hálfleik en aftur tókst Norrköping að endurheimta forystuna á 54. mínútu í leiknum. Jordan Larsson var aftur á ferðinni og skoraði þriðja mark Norrköping.

Þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma náði Falkenbergs að jafna metin í 3-3. Allt virtist stefna í jafntefli en allt kom fyrir ekki. Norrköping náði að skora sitt fjórða mark í uppbótartíma og Gummi Tóta sá um að leggja það upp. Lokatölur í leiknum urðu 4-3 Norrköping í vil og þetta varð því fyrsti sigur liðsins á leiktíðinni.

Norrköping situr í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með fimm stig.

Kolbeinn Sigþórsson var þá ekki í leikmannahópi AIK sem beið lægri hlut fyrir Örebro, 2-1, í deildinni í dag.

Stoðsending Gumma í leiknum í dag er hér: 

Bjarni Mark á toppnum í sænsku B-deildinni

Bjarni Mark Antonsson lék í dag með liði sínu IK Brage sem vann góðan 0-3 útisigur á GAIS í sænsku B-deildinni.

Eins og stendur þá trónir IK Brage á toppi sænsku B-deildarinnar með tíu stig en liðið í 2. sæti, sem er með 9 stig, á leik til góða og getur farið á toppinn með sigri um helgina.

Bjarni Mark hefur leikið allar mínúturnar með IK Brage í fyrstu fjórum umferðunum í sænsku B-deildinni.

Ekki missa af

Fleira tengt: Myndskeið