Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Guðmundur og Óttar Magnús í sigurliðum

Guðmundur og Óttar Magnús voru í eldlínunni í Svíþjóð í dag.

Mynd/Sveriges Radio

Tveir Íslendingar voru í eldlínunni í sænska boltanum í dag, Guðmundur Þórarinsson með Norrköping og Óttar Magnús Karlsson með Mjällby.

Guðmundur Þórarinsson hóf leik Norrköping gegn Östersund á varamannabekknum en var settur inn á völlinn á 52. mínútu. Staðan í leiknum var 3-0 þegar hann kom inn á og þannig urðu lokatölur leiksins.

Norrköping mun næsta fimmtudag mæta Liepaja frá Lett­landi í 2. umferð undan­keppni Evr­ópu­deild­ar­inn­ar og það gæti verið ástæðan af hverju Guðmundur byrjaði á varamannabekknum en hann hefur leikið nánast alla leiki liðsins á leiktíðinni.

Norrköping er í 6. sæti deildarinnar með 27 stig eftir 16 umferðir.

Arnór Ingvi Traustason var ekki í leikmannahópi Malmö eins og búist var við þegar liðið fékk Sirius í heimsókn í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Arnór Ingvi varð fyrir slæmum meiðslum um síðustu helgi og búist er við því að hann verði lengi frá keppni.

Malmö gerði 1-1 jafntefli við Sirius í dag. Malmö er enn á toppi deildarinnar með 36 stig, tveimur stigum á undan AIK sem er í öðru sæti.

Óttar Magnús Karlsson fékk þá að spreyta sig í tæpar tíu mínútur með Mjällby sem vann 2-0 sigur á Halmstads í sænsku B-deildinni í dag.

Óttar Magnús byrjaði á varamannabekk liðsins í leiknum en kom við sögu á 82. mínútu leiksins.

Með sigrinum lyfti Mjällby sér upp í 2. sæti sænsku B-deildarinnar og er nú komið með 31 stig eftir 16 leiki.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun