Fylgstu með okkur:

Fréttir

Grófum slúðursögum var dreift um Söru – „Þetta var mikið á­fall“

Sara Björk var sögð eiga í ástarsambandi við fyrrum landsliðsþjálfara. Þær sögusagnir reyndust vera ósannar og án tilefnis.

Mynd/sportbuzzer.de

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir mun gefa út bók fyr­ir jól­in. Bókin, sem er skráð af Magnúsi Erni Helgasyni, ber heitið Sara Björk – Óstöðvandi.

Sara hefur unnið að gerð bókarinnar ásamt Magnúsi Erni síðasta árið og í henni mun hún gera upp ferilinn og uppvöxt sinn. Sara er í ítarlegu viðtali við Fréttablaðið í dag og fer þar yfir víðan völl.

„Ég var búin að hugsa lengi um það hvort ég ætti að ræða um reynslu mína. Ef til vill finnst ein­hverjum skrýtið að svo ung manneskja vilji segja sögu sína. En þrátt fyrir ungan aldur hef ég upp­lifað og gengið í gegnum mikið á ferlinum, sumt skrifaði ég niður og hugsaði þá með mér að kannski gæti ég hjálpað ein­hverjum með frá­sögn minni. Mögu­lega ein­hverri sem langar til þess að verða at­vinnu­kona í fót­bolta,“ segir Sara.

„Þetta var miklu erfiðara en ég bjóst við. Ég var stundum and­lega búin á því og áttaði mig ekki á því hversu djúpt ég þurfti að kafa í til­finningar mínar og sjálfa mig. Þegar eitt­hvað slæmt gerist þá hef ég til­hneigingu til að setja til­finningar mínar til hliðar. Ég hugsaði stundum um hvort ég ætti ekki bara að hætta við. Stundum var þetta svo mikið af til­finningum sem komu upp á meðan ég var að tala við Magnús að ég grét á eftir. Ég vissi samt að til þess að koma þeim boð­skap sem ég vildi á fram­færi þyrfti ég að vera hundrað prósent heiðar­leg.

„Það eru kannski aðrir sem munu standa í sömu sporum og ég, ég trúi því að með því að vera opin og segja ná­kvæm­lega frá geti það auð­veldað öðrum að sjá hlutina skýrt og bregðast við þeim.“

„Sögu­sagnirnar voru á þá leið að við stæðum í fram­hjá­haldi“

Sara talaði um grófar sögusagnir þess efnis að hún hafi átt í ástarsambandi við Sigurð Ragnar Eyjólfsson, sem var kvennalandsliðsþjálfari frá 2007 til 2013. Þær sögusagnir reyndust vera ósannar og án tilefnis en Sara átti erfitt með að tækla það.

„Sögu­sagnirnar voru á þá leið að við stæðum í fram­hjá­haldi. Þetta var mikið á­fall. Ég átti kærasta og Siggi Raggi átti konu og barn. Þetta var sér­lega rætin kjafta­saga og at­laga að mann­orði okkar. Slúður­sögurnar gáfu í skyn að ég ætti ekki plássið í lands­liðinu skilið. Ég var sjálf ekki viss um hvernig ég ætti að tækla þetta og varð ó­örugg og kvíðin. For­eldrar mínir studdu vel við mig,“ segir hún.

„Mér var boðið að halda fund um málið en mér fannst ég ekki eiga að þurfa þess. Þetta sveið svo ó­gur­lega, sér­stak­lega vegna þess að ég hafði lagt svo hart að mér við að yfir­stíga meiðslin. Ég lagði allt í að komast á þann stað sem ég var komin á og nú var vegið að mann­orði mínu og dylgjað um að ég hefði ekki unnið fyrir þeirri stöðu sem ég var komin í.“

„Mér tókst að breyta reiði í orku á fót­bolta­vellinum og at­vikið gerði mig líka að betri liðs­fé­laga. Mér dettur ekki í hug að taka þátt í ill­indum eða að grafa undan liðs­fé­lögum mínum. En það tók nú samt langan tíma að komast yfir þetta. Ég á erfitt með að treysta,“

Viðtalið við Söru má lesa í heild sinni hérna.

Ekki missa af

Fleira tengt: Fréttir