Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Grátlegt tap hjá Kristianstad í úrslitum – Elísabet ósátt við dómgæsluna og rauk úr viðtali

Íslendingaliðið Kristianstad mátti þola grátlegt tap í úrslitum sænska bikarsins í dag. 

Mynd/DN.se

Íslendingaliðið Kristianstad mátti þola grátlegt 1-2 tap gegn Goteborg í úrslitum sænska bikarsins í dag.

Sif Atla­dótt­ir og Svava Rós Guðmunds­dótt­ir voru í byrj­un­arliði Kristianstad og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir sat á varamannabekknum. Sif lék allan leikinn en Svava Rós fór af velli rétt fyrir leikhlé vegna meiðsla.

Goteborg náði að komast yfir í leiknum eftir rúmt korter og liðið hélt þeirri forystu alveg þar til á 67. mínútu þegar Amanda Edgren jafnaði metin fyrir Kristianstad í 1-1.

Flest stefndi í framlengingu en allt kom fyrir ekki. Goteborg fékk vítaspyrnu eftir eina mínútu í uppbótartíma seinni hálfleiks. Elin Rubensson fór á vítapunktinn og skoraði úr spyrnunni. Grátlegt tap hjá Kristianstad, sem mistókst að vinna fyrsta stóra titil­inn í sögu félagsins.

Elísabet Gunnars rauk úr viðtali eftir leik

Elísabet Gunnarsdóttir stýrir Kristianstad og hún var langt frá því að vera sátt með dómgæsluna í leiknum í dag. Tvær fréttakonur tóku viðtal við Elísabetu eftir leikinn en hún endaði á því að rjúka úr viðtalinu eftir eina og hálfa mínútu. Viðtalið við hana má sjá með því að smella hér.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun