Fylgstu með okkur:

Umfjöllun

Glódís hafði bet­ur gegn sínu gamla liði

Glódís Perla er enn á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar eftir sigur gegn sínu gamla liði.

Mynd/Nisse Nilsson

Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar í Rosengård höfðu betur gegn Eskilstuna, 2-1, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Glódís var í dag að mæta sínu gamla liði, en hún lék með Eskilstuna á árunum 2015-17. Glódís lék allan leikinn og bar fyrirliðaband Rosengård.

Anam Imo var tvívegis á skotskónum fyrir Rosengård í leiknum en hún kom liðinu á bragðið strax á 2. mínútu leiksins og staðan í leikhléi var 1-0, heimakonum í Rosengård í vil.

Eskilstuna jafnaði metin fljótlega í seinni hálfleik en þegar þrjár mínútur voru til leiksloka skoraði Anam Imo sigurmarkið fyrir Rosengård. Lokatölur 2-1 og stigin þrjú fóru því til Rosengård.

Með sigrinum er Rosengård enn með þriggja stiga forskot á toppi deildarinnar en liðið hefur alls 27 stig eftir 12 umferðir.

Sif Atladóttir lék allan leikinn með liði sínu Kristianstad sem gerði markalaust jafntefli við Linköpings í dag. Anna Rakel Pétursdóttir byrjaði á varamannabekknum hjá Linköpings en var skipt inn á þegar um tuttugu mínútur voru eftir. Svava Rós Guðmundsdóttir var ekki í leikmannahópi Kristianstad í dag.

Kristianstad er 6. sæti deildarinnar með 19 stig en Linköpings er í 5. sæti með 22 stig.

Þá sat Andrea Thorisson allan tímann á varamannabekknum hjá Limhamn Bunkeflo í 4-0 tapi liðsins gegn Vittsjö.

Ekki missa af

Fleira tengt: Umfjöllun